Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 76/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 76/2022

Miðvikudaginn 15. júní 2022

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 31. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B dags. 12. janúar 2022, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er X ára sonur kæranda. Mál drengsins hófst 8. júlí 2021 í kjölfar tilkynningar um ofbeldi.

Í greinargerð Barnaverndar B um könnun málsins, dags. 28. nóvember 2021, kemur fram að tilkynning hafi borist 7. september 2021 frá D um að faðir drengsins hafi beitt hann ofbeldi.

Að undangenginni könnun samkvæmt 22. gr. bvl. var mál drengsins tekið fyrir hjá Barnavernd B og tekin ákvörðun, dags. 12. janúar 2022, um að loka málinu þar sem ekki væri talin þörf á frekari afskiptum.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 31. janúar 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. febrúar 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndar B barst nefndinni með bréfi, dags. 23. febrúar 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. mars 2022, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki. 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að endurskoðuð verði ákvörðun Barnaverndar B um að aðhafast ekki varðandi ofbeldi föður gegn barni og hvort kæra hefði átt ofbeldið til lögreglu.

Í kæru greinir kærandi frá því að ofbeldi gagnvart barninu hafi verið tilkynnt til barnaverndar af sálfræðingi barnsins en kærandi kveðst hafa leitað til sálfræðings með barnið eftir að bera fór á einkennum kvíða og þunglyndis hjá barninu. Faðir barnsins sé með forsjár-, umgengnis- og meðlagsmál fyrir dómi og lögmaður hans sé lögmaður Barnaverndar B. Kærandi telur að þessu tengsl geri ákvörðun Barnaverndar B um að aðhafast ekki mjög tortryggilega.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B kemur fram að þess sé krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti hina kærðu ákvörðun.

Fram kemur að málsatvik hafi verið með þeim hætti að Barnavernd B hafi borist tilkynning, dagsett 8. júlí 2021, frá D en dagsetning á tilkynningu sé líklegast röng miðað við dagsetningar sem koma síðar fram í tilkynningunni. Þar komi fram að drengurinn hafði verið í viðtölum hjá sálfræðingi frá 9. júní 2021 vegna hegðunarerfiðleika og vanlíðanar í tengslum við samskipti við föður. Í viðtali við sálfræðing þann 13. júlí 2021 hafi móðir drengsins greint frá því að drengurinn hafi sagt sér að faðir hans hafi lagt hendur á hann um síðustu jól. Samkvæmt frásögn drengsins við móður sína hafi faðir hans verið að drekka áfengi og hafi reiðst drengnum með þeim afleiðingum að hann hafi gripið fast í drenginn og hrint honum. Kærandi segir að drengurinn hafi verið hræddur um að segja frá þessu af ótta við viðbrögð föður síns. Kærandi  segir að hún hafi upplifað að drengurinn hafi orðið mjög dapur og frekar niðurbrotinn eftir jólin. Tilkynnandi hafi óskað eftir því að barnaverndarnefnd legði mat á hvort tilefni væri til þess að kanna málið frekar.

Í kjölfar tilkynningarinnar hafi verið ákveðið að hefja könnun máls samkvæmt 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vegna áhyggja af líðan barns og samskipta þess við föður. Ekki hafi verið talin ástæða til þess að skipa barninu talsmann samkvæmt 46. gr. barnaverndarlaga á þessu stigi máls þar sem starfsmaður barnaverndar myndi koma til með að ræða við drenginn undir könnun máls.

Undir könnun máls hafi verið rætt við kæranda, drenginn sjálfan og upplýsinga aflað frá skóla. Drengurinn lýsti því að faðir hans hefði ýtt honum og að hann hefði upplifað föður sem ógnandi.

Samkvæmt upplýsingum frá skóla hefur drengnum liðið illa á þessari önn en hann eigi sína góðu daga og þá geti allt gengið ágætlega. Hann hafi að undanförnu málað sig út í horn vegna gjörða sinna en verið sé að vinna í þeim málum og sé það vel á veg komið og sé góð samvinna á milli heimilis og skóla.

Undir könnun máls hafi komið fram að kærandi hefur verið að leita sér stuðnings með því að sækja viðtöl hjá sálfræðingi, auk þess sem drengurinn sé í viðtölum hjá sálfræðingi á D. Þau viðtöl aðstoði hann við að bæta líðan sína og vinna úr atviki tengt tilkynningu, að mati starfsmanns Barnaverndar B. Þá hafi kæranda verið leiðbeint með að fara fram á nýjan umgengnissamning/úrskurð teldi hún ástæðu til þess, en faðir hafi stefnt kæranda fyrir dóm og fer fram á sameiginlega forsjá, endurskoðun á upphæð meðlagsgreiðslu og jafna búsetu.

Það hafi verið niðurstaða starfsmanna Barnaverndar B að könnun lokinni að ekki væri þörf á stuðningsúrræðum barnaverndar þar sem drengurinn væri í viðtölum hjá sálfræðingi á vegum móður og sé litið svo á að drengurinn sé með fullnægjandi stuðning. Því hafi málinu verið lokað af hálfu Barnaverndar B. Kæranda hafi verið sent bréf um lokun málsins þar sem henni hafi verið tilkynnt um niðurstöðu könnunar, að málinu yrði lokað og bent á kæruheimild, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga.

Hvað varði staðhæfingar í kæru um að lögmaður föður í forsjármáli sé jafnframt lögmaður Barnaverndar B kannast lögfræðingur velferðarsviðs ekki við slíkt. Verið geti að umræddur lögmaður hafi verið fenginn til að flytja einstök mál fyrir Barnaverndarnefnd B fyrir Landsrétti en í ákveðnum tilvikum sé keypt þjónusta af sjálfstæðum lögmönnum til þess. Það hafi ekki áhrif á hæfi starfsmanna Barnaverndar B eða ákvarðanir sem teknar séu á vegum nefndarinnar.

Samkvæmt 2. gr. barnaverndarlaga sé það markmið laganna að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Það sé mat Barnaverndar B að drengurinn búi hvorki við óviðunandi aðstæður né að heilsa hans eða þroski séu í hættu. Drengurinn búi við viðunandi uppeldisaðstæður og virðist fá þann stuðning sem hann þurfi til að þroskast og dafna og takast á við þær áskoranir sem hann stendur frammi fyrir. Verði breyting á því eða frekari tilkynningar berast mun Barnavernd B að sjálfsögðu taka málið til skoðunar að nýju.

Með vísan til alls, sem hér að ofan greinir, sé ítrekuð sú krafa Barnaverndar B að ákvörðun hennar verði staðfest.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn C , er sonur kæranda. Mál drengsins hófst í kjölfar tilkynningar D um ofbeldi föður gagnvart drengnum. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar B frá 12. janúar 2022 var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndarinnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Í 3. mgr. 22. gr. bvl. kemur fram að ef grunur sé um að barn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi eða alvarlegu líkamlegu eða andlegu ofbeldi beri barnaverndarþjónustu að óska eftir þjónustu Barnahúss við könnun málsins. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 107/2021 kemur fram að í ákvæðinu felst skylda til að óska eftir þjónustu Barnahúss sem síðan metur hvort ástæða sé til að bjóða barninu þjónustu.

Í ljósi fyrrgreinds lagaákvæðis og tilkynningar frá D, dags. 8. júlí 2021, vegna gruns um líkamlegt ofbeldi, telur úrskurðarnefndin að Barnavernd B hafi borið skylda til að leggja sérstakt mat á það hvort tilkynningin hafi gefið tilefni til að óska eftir aðstoð Barnahúss við könnun málsins, sbr. 3. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga, sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 107/2021.

Samkvæmt framansögðu telur úrskurðarnefndin að könnun málsins hafi ekki verið í samræmi við málsmeðferðarreglur barnaverndarlaga og því er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til Barnaverndar B til meðferðar að nýju.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B, dags. 12. janúar 2022, um að loka máli vegna drengsins C, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndar B.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum